Gamli bærinn

Að Austur-Meðalholtum stendur jafnframt á ósnortnum bæjarhól sem umvafinn er trjágróðri einn af fáum varðveittum torfbæjum landsins. Þarna er að finna baðstofu, hlóðaeldhús, bláu stofu, smiðju, hjall, hlöðu og fjós. Í gamla kálgarðinum á vestanverðum bæjarhólnum er stunduð margvísleg lífræn grænmetisræktun. Þar eru nú einnig staðsett býflugnabú og draga flugurnar að tugi kílóa af hunangi úr margbreytilegum mýrarblómum og blómstrandi mjaðjurtabreiðum.

Austur-Meðalholt er einn fárra torfbæja á landinu. Öll hús sem byggð hafa verið á bæjarhólnum hafa ávalt verið torfhúsabyggingar og flestar byggðar á grunni bygginga frá 19. öld eða eldri. Í öllum hugsunarhætti, byggingaaðferðum og notkun byggingarefnis er Austur-Meðalholt skilgetið afkvæmi íslenskrar torfbæjarhefðar, búskaparhátta og bændamenningar. Austur-Meðalholt er dæmigert mannvirki fyrir byggingastíl torfbæja á Suðurlandi á ofanverðri 19. öld. Baðstofan og ýmsir aðrir bæjarhlutar voru endurnýjaðir og lagfærðir 1895 (árið fyrir Suðurlandsjarðskjálftann) og stóðu flest húsin því skjálftann allvel af sér. Búið var hefðbundnum blönduðum búskap á Austur–Meðalholtum þangað til 1965. Búskaparhættir voru alla tíð með gamla laginu og vélknúin tæki aldrei notuð við búskapinn og allur húsakostur  með  djúpar rætur í íslenskum torfbæjararfi.  Meðan búið var í bænum voru jafnan ekki færi en 10-15 hús  á bæjarhólnum, ásamt heygarði og kálgarði umluktum torfiveggjum, auk útihúsa. Veruleg uppbygging hefur farið fram við gamla bæinn að Austur-Meðalholtum síðan 1986 og  nýju lífi blásið í bæinn og umhverfi hans.; og telst bærinn  nú í góðu ástandi.

torfbaejarlogo1

AusturMedalholt1924

Austur-Meðalholt 1924

AusturMedalholt1930

Austur-Meðalholt um 1935

Nýlegar myndir

Eldri myndir